Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

20. desember 2024

Ólína hlýtur Fulbright styrk

Stjórn Fulbright stofnunarinnar hefur ákveðið að veita dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, prófessor og deildarforseta Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst Fulbright fræðimannsstyrk til rannsóknarstarfa í Bandaríkjunum á skólaárinu 2025-2026.  

Fulbright náms- og rannsóknaskiptiáætlunin er ein viðurkenndasta og virtasta alþjóðlega skiptiáætlun í heimi. Það telst því heiður fyrir bæði Fullbright styrkhafa og stofnanir þeirra að njóta viðurkenningar og stuðnings Fulbright stofnunarinnar.

Ólína hyggur á 3ja mánaða dvöl við Berkeley University næsta haust þar sem hún mun verða gestur Norrænu deildarinnar, Department of Scandinavian Studies. „Ég býst við að ég muni nýta þetta tækifæri eins vel og ég get til þess að kynna land mitt og þjóð, en ekki síst Háskólann á Bifröst og það sem hér fer fram, í þeirri viðleitni að skapa góð tengsl við Berkeley til framtíðar“ segir Ólína heldur glöð í bragði um áform sín sem Fulbright styrkþega. Fræðasvið Ólínu eru íslenskar bókmenntir og þjóðfræði. Rannsóknaráætlun hennar vegna dvalarinnar við Berkeley snýr að íslenskum fræðum, þjóðmenningu og sögu. „Við Norrænu deildina í Berkeley eru afbragðs fræðimenn og rannsakendur á mínu fræðasviði, til að mynda Timothy Tangerlini, Asta Mönsted og Linda Haverty Rugg sem öll hafa getið sér alþjóðlegt orð fyrir framlag sitt á sviði þjóðfræðirannsókna. Það er mér mikið tilhlökkunarefni að fá að starfa nánar með þessu fólki og deila með því rannsóknum og fræðilegum álitaefnum“ segir Ólína. „Við hjá Háskólanum á Bifröst óskum Ólínu innilega til hamingju með þessa viðurkenningu og erum þakklát fyrir það góða samstarf sem við höfum átt við Fulbright stofnunina“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta