Nýr símenntunarstjóri, rannsóknastjóri og samskiptastjóri á Bifröst
Anna Jóna Kristjánsdóttir, Helga Guðrún Jónasdóttir og Helga Ólafs eru boðnar velkomnar til starfa, en þær hófu allar störf nú í ágústbyrjun við Háskólann á Bifröst.
Anna Jóna Kristjánsdóttir er nýr forstöðumaður háskólagáttar og símenntunar á Bifröst. Anna Jóna starfaði við Menntaskólann á Ísafirði frá árinu 2014, fyrst sem kennari í sálfræði og félagsgreinum og svo jafnframt sem gæðastjóri frá hausti 2017. Þá stýrði hún innleiðingu gæðakerfis og jafnlaunakerfis við skólann. Anna Jóna hefur lokið BS námi í sálfræði frá HÍ, kennsluréttindanámi frá HÍ og MA í guðfræði frá Fuller Theological Seminary.
Helga Ólafs er nýr rannsóknastjóri við Háskólann á Bifröst. Helga var áður ritstjóri Tímarits hjúkrunarfræðinga frá 2015-2021. Hún hefur lagt stund á doktorsnám í fjölmiðlafræði meðfram kennslu við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og var aðjúnkt við fjölmiðlafræði og með umsjón með fjölmiðlafræði við HÍ frá 2014-2016. Helga á að baki áratuga ritstjórnarreynslu og ritstýrði hún m.a. Þjóðarspeglinum fyrir hönd félags- og mannvísindadeildar til fjölda ára. Helga hefur tekið þátt í fjölbreyttu rannsóknarsamstarfi, var hún skipuð fulltrúi Íslands í Norræna fjölmiðlaráðinu Nordicom frá 2016-2023 og aðstoðarfulltrúi frá 2014-2016, þar sem hún tók virkan þátt í útgáfu- og ritstjórnarteymi og sat einnig í ritnefnd Nordicom Review. Helga er með MA gráðu í blaða- og fréttamennsku og BA gráðu í sálarfræði.
Þá er Helga Guðrún nýr samskiptastjóri Háskólans á Bifröst. Auk ráðgjafarstarfa í samskiptastjórnun og almannatengslum, hefur Helga Guðrún m.a. verið samskiptastjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, upplýsinga- og markaðsfulltrúi hjá Fjarðabyggð og kynningarstjóri hjá bílaumboðinu B&L. Þá var hún um árabil upplýsingafulltrúi hjá Bændasamtökum Íslands og síðar einnig hjá Verslunarráði Íslands. Reynsla Helgu Guðrúnar af félags- og stjórnmálum er jafnframt umtalsverð, en hún hefur m.a. verið formaður Kvenréttindafélags Íslands og Landssambands sjálfstæðiskvenna og setið í Lista- og menningarráði, félagsmálaráði og jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar. Helga Guðrún er með BA próf í stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún einnig lagt stund á vefmiðlun við H.Í.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta