NATO veitir HEIST veglegan styrk 10. júlí 2024

NATO veitir HEIST veglegan styrk

NATO hefur ákveðið að veita HEIST, viðamiklu öryggis- og varnarmálaverkefni sem lagadeild Háskólans á Bifröst á aðild að, 400.000 evru styrk, sem jafngildir um 60 milljónum íslenskra króna.

Styrkurinn kemur úr vísindasjóði bandalagsins í þágu friðar og öryggis (Science for Peace and Security Programme), en heildarkostnaður HEIST verkefnisins nemur 2,5 milljón Bandaríkjadala eða um 350 milljónum króna.

HEIST verkefnið lítur að auknu öryggi gagnaflutninga á sæstrengjum sem þvera hafsbotn Norður-Atlantshafsins og leiða á hverjum sólarhring gríðarlegt magn af stafrænum gögnum heimsálfanna á milli.

Erfitt getur reynst að verja þessa mikilvægu fjarskiptainnviði skemmdum, hvort heldur af náttúrunnar eða mannanna völdum. Efnahagsleg þýðing þeirra er þó gríðarleg, hleypur á þúsundum trilljóna Bandaríkjadala, enda er stór hluti heimsviðskipta hér undirliggjandi.

Er þá ótalið hernaðarlegt mikilvægi sæstrengjanna gagnvart fjarskiptum NATO-ríkjanna á átaka- eða ófriðartímum. Það má því segja að HEIST þjóni í senn mikilvægum alþjóðaviðskipta- og varnarmálahagsmunum.

Að sögn Bjarna Más Magnússonar, deildarforseta Lagadeildar Háskólans á Bifröst, snýst verkefnið í grunninn um að gera fjarskiptainnviði harðgerðari eða viðnámsþolnari (e. resilient infrastructure), s.s. með því að þróa aðferðir sem færa fjarskiptin með skjótvirkum hætti yfir á gervihnetti.

Auk þeirra tæknilegu áskorana sem verkefnið felur í sér, s.s. með hliðsjón af því gríðarlega gagnamagni sem um ræðir, þá er lagahlið verkefnisins ekki síður flókin. Í frétt Bloombergs um málið er þessari lagalegu hlið t.a.m. lýst sem „messy“ eða óárennilegri af viðmælanda fréttaveitunnar.

HEIST er skammstöfun á Hybrid Space and Submarine Architecture to Ensure Information Security of Telecommunications og kemur að verkefninu breiður hópur íslenskra, sænskra, svissneskra og bandarískara samstarfsaðila.

Auk Háskólans á Bifröst taka fjórir aðrir háskólar þátt í því eða Varnarmálaháskóli Sviþjóðar, ETH Zürich háskólinn í Sviss og bandarísku Cornell og Johns Hopkins háskólarnir. Þá eiga sænsk hernaðaryfirvöld, frá bæði flug- og sjóher, einnig aðilda að verkefninu, sem og íslenska netöryggisfyrirtækið Syndis, svo að dæmi séu tekin.

Bjarni Már, sem er hluti af stjórnendateymi verkefnisins, segir aðkomu Háskólans á Bifröst aðallega tengjast fræðilegri stöðu hans innan alþjóðlegs hafréttar, öryggisfræða, almannavarna, áfallastjórnunar og alþjóðastjórnmála. Þá hafi HB einnig rutt brautina innan hagnýtra geimfræða á sviði félagsvísinda hér á landi, sem tengjast m.a. lagalegum og stjórnsýslulegum forsendum fyrir hagnýt verkefni í geimnum.

„Markmiðið HEIST er að stuðla að auknu öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða og finna lausnir á margvíslegum tæknilegum, lagalegum og pólitískum hindrunum sem staðið geta þar í veginum. Verkefnið er brautryðjandi á sínu sviði og að því koma fjölmargir sérfræðingar í fremstu röð í öryggis- og varnarmálum Evrópu og Bandaríkjanna. Það felst því bæði heiður og mikil viðukenning fyrir okkur að vera aðili að þessu metnaðarfulla varnarmála- og öryggisverkefni. Verkefni af þessum toga styður við alþjóðavæðingu HB, rannsóknarstarf og uppbyggingu á sviði öryggisfræða og almannvarna og, ef út í það er farið, er til hagsbótar fyrir íslenskt samfélag.“

Sjá umfjöllun á visir.is

Sjá umfjöllun á mbl.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta