Iceland Airwaves: Pallborð um togstreitu listræns frelsis og viðskiptahagsmuna
Iceland Airwaves á 25 ára afmæli í ár. Anna Hildur Hildibrandsdóttir fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst var umræðustjóri í pallborði um togstreituna sem getur skapast á milli listræns frelsis og viðskiptahagsmuna. Shut up and play - sem gæti útlagst: Haltu kjafti og spilaðu - var yfirskrift pallborðsins.
Þátttakendur í umræðunni voru Ai Jing tónleikabókari frá Haze Sounds í Beijing, Kína, Ariane Mohr bókari fyrir Reeperbahn-hátíðina í Þýskalandi, Diana Burkot listakona, aðgerðarsinni og meðlimur í Pussy Riot og Ragnar Kjartansson listamaður.
Í umræðunni kom skýrt fram hversu hættulegar aðstæður listamanna og þeirra sem starfa að menningarviðburðum geta verið.
Starf tónleikahaldara í Kína er að hluta til að gera listamönnum grein fyrir hvað þeir geta ekki sagt. Ai Jing benti þannig á að það er tónleikahaldarinn sem kemst í klandur ef vestrænir listamenn tjá skoðanir sem kínverskum stjórnvöldum líka ekki. Ariane sagði sniðgönguhreyfinguna hafa veruleg áhrif á starfsemi ýmissa tónlistarhátíða undanfarið og að Reeperbahn hafi óttast að lenda í þeim. Henni þætti mikilvægt að huga að því að hugsa um hátíðir sem leið til að nýta tjáningarfrelsið og með því að vega að þeim fækkaði líka leiðum listamanna til að koma skilaboðum sínum á framfæri.
Undir þetta tók Diana í Pussy Riot og sagði mikilvægt að nýta öll tækifæri til að efna til samtals því öðruvísi væri ekki hægt að breyta hlutum. Diana býr á Íslandi og stundar nú nám við Listaháskóla Íslands og segist halda ótrauð áfram með aktívisma þrátt fyrir að hafa lent í fangelsi. Hún sagði það skipta sig öllu máli að geta tjáð sig um það sem henni finnst þurfa að breyta og að geta átt samtal um það.
Ragnar Kjartansson sagði forréttindi að búa á Íslandi þar sem allir mættu tjá sig um það sem þeir vilja. Reynsla hans af því að setja upp sýningu í Ísrael árið 2016 og síðan í Moskvu árið 2022 hafi opnað augu hans og kennt honum hversu dýrmætt tjáningarfrelsið er. Það hafi vissulega verið umdeilt að taka þær ákvarðanir að vinna í löndum þar sem mannréttindi eru ekki virt en það hafi verið tækifæri til að tengjast listamönnum og efna til ögrandi samtals.
Niðurstaða umræðunnar var að mikilvægt væri fyrir listamenn að tjá sig að vild og spila, að nýta mátt listarinnar til að finna farveg fyrir ögrandi umræðu í aðstæðum þar sem tjáningarfrelsi er fótum troðið.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta