Háskólinn á Bifröst aðili að markhópagreiningu fyrir íslenska ferðaþjónustu
Háskólinn á Bifröst og Rannsóknarmiðstöð Ferðamála/Háskólinn á Akureyri hafa á síðustu misserum í sameiningu unnið markhópagreiningu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Markmiðið er að gefa skýrari mynd af þeim ferðamönnum sem von er á hingað til lands. Verkefnið hefur verið fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og verður fjármagnað af Stjórnstöð ferðamála í framhaldinu.
,.Greiningin byggist á markaðsrannsókn í upprunalandinu, en ekki gestarannsókn, líkt og hingað til hefur tíðkast á Íslandi. Þ.e.a.s. dregnar eru upplýsingar frá fólki sem hefur ekki endilega komið hingað en gæti hugsað sér það. Hinn dæmigerði ferðamaður sem hingað kemur er hinn svokallaði upplýsti ferðamaður. Hann er á miðjum aldri, vel menntaður og vel stæður, víðsýnn og hefur áhuga á menningu og náttúru. Með greiningunni gefst möguleiki á að fanga fleiri undirhópa af þessari tegund ferðamanns, gefa marktækari og nákvæmari niðurstöður og víkka út markhópinn,“ segir Einar Svansson, lektor á viðskiptasviði Háskólans á Bifröst.
Spáð fyrir um fjölda ferðamanna
Einar segir að með nákvæmari upplýsingum sé hægt að spá fyrir hversu miklar líkur séu á að fólk komi til Íslands á næstu 5-10 árum og þannig geti ferðaþjónustuaðilar verið betur í stakk búnir til að mæta þeim fjölda. Einnig nýtist upplýsingar vel til að dreifa gestum yfir árið og fá fleira hingað á veturna og þá sérstaklega út á landsbyggðina. Þar þurfi víða að búa til aukið aðdráttarafl og endurhugsa ferðamennskuna svolítið.
„Það er enn mikilvægara að menn viti hvað þeir eru að gera í ferðaþjónustunni þegar vöxturinn og hraðinn er jafn mikill og raun ber vitni. Eins leggjum við okkur fram við að birting á greiningu og gögnum sé hagnýt og notendavæn fyrir ferðaþjónustuaðila því þeir hafa ekki tíma sjálfir. Við höfum unnið náið með Íslandsstofu og með rýnihópum úr stærstu ferðaþjónustufyrirækjum landsins en fulltrúar allt að 30 fyrirtækja hafa komið að greiningunni. Það eru allir áhugasamir að setja sitt lóð á vogarskálarnar og almennt séð mikill velvilji og áhugi að sjá hvað kemur út úr þessu,“ segir Einar.
Raunhæft að tengja saman rannsóknir og háskólanám
Nemendur háskólanna unnu gagnagreiningu á fyrri rannsóknum og aðferðum sem notaðar hafa verið við slíka markhópagreiningu og teiknuðu upp þau helstu lönd sem þar eru til fyrirmyndar. Segir Einar þá hafa staðið sig með stakri prýði og sú vinna sýni vel að hægt sé að tengja rannsóknir og háskólanám á raunhæfan hátt og veita nemendum hagnýta reynslu.
Í framhaldinu voru spurningalistar lagðir fyrir nærri 4000 manns á Bretlandi og í Þýskalandi. Framundan er nú greining þeirra gagna og mögulegar endurbætur á spurningalistum sem síðan verða lagðir fyrir fólk í í fimm til sjö löndum til viðbótar. Háskólinn á Bifröst mun leiða tölfræðilega vinnu því tengdu og að öllum líkindum taka þátt í verkefninu til frambúðar.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta