Guðni Tómasson ráðinn framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Mynd: Sinfóníuhljómsveit Íslands

Guðni Tómasson ráðinn framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Mynd: Sinfóníuhljómsveit Íslands

11. nóvember 2024

Guðni Tómasson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands

„Það er algjör heiður og mikil forréttindi að fá að starfa með og fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands,“ segir Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og fyrrum nemandi við Háskólann á Bifröst. 

Háskólinn á Bifröst óskar Guðna Tómassyni innilega til hamingju með nýtt starf sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Guðni lauk námi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst árið 2015 samhliða ráðgjafastörfum fyrir mennta- og menningarmálaráðherra.

Gæsahúð yfir því sem koma skal

„Ég er einmitt að koma af fyrstu kynningu minni á efnisskrá næsta starfsárs, það er að segja 2025-2026,“ segir Guðni um sinn fyrsta starfsdag þegar Háskólinn á Bifröst náði tali af honum. - Og hvernig leggjast áætlanir næsta starfsárs í þig? „Dagskráin er auðvitað trúnaðarmál þannig að ég get lítið gefið upp en ég get þó sagt að ég er alveg gríðarlega spenntur! Það má alveg hafa það eftir mér að næstu misseri hér á bæ verða mjög spennandi. Forveri minn í starfi, Lára Sóley Jóhannsdóttir og hennar fólk, nú mitt fólk, hefur unnið gríðargott verk. Ég fékk eiginlega síendurtekna gæsahúð við tilhugsunina um hvað við erum að fara að bjóða upp á.“

Stressaður á hljómsveitarstjórapalli með Pál Óskar á kantinum

Guðni bendir á að Sinfóníuhljómsveit Íslands sé töluvert stærri vinnustaður en margir gera sér ef til vill grein fyrir. „Við erum með á milli 80 og 90 stöðugildi í hljómsveitinni og þrettán í stoðteymi enda starfsemin mikil og fjölbreytt. Auk hefðbundinna tónleika af öllum mögulegum gerðum heldur hljómsveitin úti metnaðarfullu barna- og fræðslustarfi og býður árlega þúsundum nemenda á ýmsum skólastigum á skólatónleika,“ segir Guðni. „Það er því alltaf nóg um að vera hér hjá okkur. Ég fékk tækifæri til að ávarpa mitt góða fólk í hljómsveitinni í fyrsta sinn núna áðan á æfingu vegna tónleika Páls Óskars og Sinfó. Það verður að viðurkennast að það var ansi stressandi að standa fyrir framan tæplega 100 manna her sérfræðinga í tónlist  í Hörpu og kynna sig sem framkvæmdastjóra fyrir þessa mikilvægu starfsemi. Þetta var eiginlega svo stressandi að ég var við það að tárast bara,“ segir Guðni hlæjandi í samtali við Háskólann á Bifröst en bætir við að kynningin hafi vitanlega tekist vel. „Ég á samt enn dálítið erfitt með þennan framkvæmdastjóra titil. Hann þarf þá bara að venjast hægt og rólega,“ segir Guðni.

Menningarstjórnun á Bifröst dýrmæt reynslu

Guðni segir að menningarstjórnunarnámið við Háskólann á Bifröst hafi veitt honum dýrmætt tengslanet og víðtæka þekkingu á sviði menningarstarfsemi. Þessi reynsla hefur undirbúið hann fyrir þær áskoranir sem fylgja því að leiða menningarstofnun eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. „Í náminu við Háskólann á Bifröst kynntist ég mörgum frábærum einstaklingum og ég er enn í samskiptum við mörg þeirra. Það er ómetanlegt að hafa stuðningsnet af fólki sem skilur áskoranir sem fylgja starfsemi menningarstofnana og hefur sömu sýn og metnað og maður sjálfur,“ segir Guðni.

Markmið MA-MCM í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst er að veita nemendum grunn og þjálfun í stefnumótun, stjórnun og rekstri sem nauðsynlegur er í menningarumhverfi samtímans. Nám í menningarstjórnun býr nemendur undir viðamikil og oft vandasöm störf á menningar- og menntasviðinu. Námið hefur verið í boði frá árinu 2004 og er mótað með hliðsjón af íslensku og alþjóðlegu menningarumhverfi og þeim áskorunum sem bíða nemenda að námi loknu. 

Lífsgæði í því að njóta fjölbreyttrar tónlistar

Áhugi Guðna á sígildri tónlist byrjaði snemma en í áfanga við Fjölbrautaskólann í Garðabæ tók tónlistaráhuginn kipp. Þar var í boði valáfangi sem kallaðist MÚS 102 og námsefnið var að hlusta á tónlist, segja frá og meta þá upplifun með stuttum ritgerðum og kynningum. „Þetta námskeið hafði ótrúleg áhrif á mig og mitt líf,“ segir Guðni. „Um námið sáu tveir heiðursmenn Valdemar Pálsson (um klassík) og Gerard Cinotti (um djass). Það snerist ekki bara um að hlusta á tónlist heldur að kafa í hana og kynnast henni. Við hlustuðum á djass og klassíska tónlist, fórum á tónleika og skrifuðum skýrslur um það sem við upplifðum. Þetta varð til þess að ég fann þennan varanlega áhuga á klassískri tónlist og tónlistarheiminum. Áfanginn átti  stóran í því að ég hef óbilandi trú á heilandi mátt tónlistarinnar fyrir manneskjuna og á samfélagslegt mikilvægi hennar. Góð tónlist eykur lífsgæði almennt.“ 

Fylgdi sveitinni í Hörpu

Guðni hefur starfað við fjölmiðlun á menningarsviðinu frá því laust eftir aldamót, einkum við miðlun tónlistar- og menningarlífs hjá Ríkisútvarpinu, nú síðast sem menningarritstjóri. Vegna starfa sinna hjá RÚV og þekkingar á sígildri tónlist var hann skipaður stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2010-2014, sat í stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss á árunum 2019-2023 og var einnig formaður listráðs Hörpu 2022-2024. „Það eru einstök forréttindi að fá að starfa með Sinfóníuhljómsveit Íslands – hvort sem það er nú sem framkvæmdastjóri, áður í gegnum útvarpið, eða á sínum tíma sem stjórnarformaður,“ segir hann.

Guðni sat í stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar þegar flutningurinn úr Háskólabíói í Hörpu stóð yfir. „Þetta voru sérkennilegir og magnaðir tímar þegar Harpa var opnuð. Ég fylgdist náið með þessu ferli,“ segir hann og lýsir flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu sem miklum kaflaskilum í íslenskri menningarsögu. „Ég var heppinn að fá að fylgja hljómsveitinni inn í húsið fyrsta morgunin þegar hún lék tónlist á sviðinu í Eldborg. Það var magnað að sjá svipinn á hljómsveitarmeðlimum – bara sjá andlit þeirra lýsast upp – þegar þau heyrðu hljóminn. Daginn áður voru tónleikar í Háskólabíói þar sem Brahms-sinfónía var flutt. Á fyrstu æfingunni í Hörpu var svo sami kafli spilaður aftur. Ég mun aldrei gleyma þessu augnabliki eða gleðinni í augum þeirra sem þar voru. Munurinn í hljóm var svo mikill. Með tilkomu hússins fluttist hljómsveitin eiginlega í miðju íslensks menningarlífs, þar sem hún er enn. Við þetta fékk sveitin tækifæri til að enduruppgötva sig og sú uppgötvun stendur eiginlega enn yfir. Ég verð alltaf ánægður og stoltur af því að fá að vera hluti af þeirri vegferð.“

Horft til framtíðar með Sinfóníuhljómsveitinni

Guðni leggur mikla áherslu á menntun og fræðslu innan menningarstofnana. „Það skiptir máli að ungt fólk fái aðgang að tónlist og menningu. Sinfóníuhljómsveitin hefur það hlutverk að veita fjölbreyttum hópi aðgang að klassískri tónlist og menningarviðburðum, og mér finnst mikilvægt að hún haldi áfram að efla samstarf sitt við menntakerfið.“

Guðni horfir bjartsýnn til framtíðar með hljómsveitinni og segist ætla að leggja sitt af mörkum til að efla starf hennar enn frekar. „Við erum með frábæra tónlistarmenn og starfsfólk sem gerir Sinfóníuhljómsveit Íslands að einni mikilvægustu menningarstofnun landsins. Ég vil gera mitt til að tryggja að hljómsveitin haldi áfram að vaxa og dafna og sé aðgengileg sem flestum,“ segir Guðni.

Háskólinn á Bifröst er stoltur af árangri Guðna Tómassonar og hlakkar til að fylgjast með honum á nýjum vettvangi, þar sem hann nýtir þekkingu sína og reynslu til að efla íslenskt tónlistarlíf. Með honum er Sinfóníuhljómsveitin í traustum höndum.