Frábær fyrstu kynni 21. ágúst 2024

Frábær fyrstu kynni

Nýnemadagar Háskólagáttar Háskólans á Bifröst eru að baki og er óhætt að segja að með þeim hafi myndast skemmtilegur vettvangur fyrir ný og góð kynni á meðal nýnemenda, kennara og starfsfólks.

Þetta eru jafnframt fjölmennustu nýnemadagar í sögu háskólans á síðari tímum, en ríflega 1600 nemendur hefja nám við HB nú í haust, þar af eru nýnemar um helmingur.

Meistaranemar eru jafnframt í fyrsta sinn fleiri að tölu en grunnnemar. Það er því margt sem ber til tíðinda hjá Háskólanum á Bifröst þetta haustið.

Markmið nýnemadaga er að kynna námsfyrirkomulag og þjónustu sem nemendum við HB stendur til boða, auk þess sem nýnemar fá yfirhalningu í tæknilegum efnum hjá upplýsingatæknideild skólans, en nám við HB fer sem kunnugt er fram í fjarnámi í skýinu og það er því mikilvægt að allir séu vel upplýstir um gang mála í þeim efnum.

Þá fá kennarar og nemendur frábært tækfæri til að hittast, auk þess sem Atli Björgvinsson, en hann hefur lokið bæði grunn- og meistaranámi í viðskiptafræðideild HB, sagði frá upplifun sinni af því hvernig það er að vera fjarnemandi við Bifröst.

Þess má svo geta að nýnemadagar grunn- og meistaranema voru í Hjálmakletti, Borgarnesi, en við Háskólagátt Háskólans á Bifröst hittust nýnemar í húsnæði Landbúnaðarhaskólans á Hvanneyri.

Háskólinn á Bifröst hefur jafnan verið settur á nýnemadögum. Þetta haustið kom setning háskólans þó í hlut Ólínu Kjærúlf Þorvarðardóttur, forseta félagsvísindadeildar og staðgengil rektors, þar sem Margrét Jónsdóttir Njarðvík var erlendis þann 16. ágúst sl. er nýnemadagarinar fóru fram.

Ekkert var því hins vegar til fyrirstöðu að rektor setti Háskólagátt HB þann 9. ágúst sl. og hringdi hún með glæsibrag inn nýja skólaárið, eins og myndin hér að ofan ber með sér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta