Bifröst og OpenEU samstarfið - Byggjum eitthvað stórt 29. janúar 2025

Bifröst og OpenEU samstarfið - Byggjum eitthvað stórt

Háskólinn á Bifröst er eitt aðildarfélaga OpenEU háskólasamstarfsins, sem samanstendur af evrópskum fræðastofnunum og öðrum tengdum samtökum og er stutt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Markmið samstarfsins er að skapa sam-evrópskan opinn háskóla sem nýtir stafrænt nám samfélögum til heilla. Sérstök áhersla er lögð á að auka þátttöku minnihlutahópa og þeirra sem búa við skert tækifæri til háskólanáms. 

Verkefnið OpenEU er hafið

Dagana 16.-17. janúar hittust fulltrúar þeirra tíu háskóla sem standa að OpenEU háskólasamstarfinu á stofnfundi verkefnisins í Barcelona. Þar var hleypt af stokkum fjögurra ára verkefni sem miðar að því að koma opnum sam-evrópskum háskóla á laggirnar. Fulltrúar Háskólans á Bifröst á fundinum voru þau Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor, Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir forseti félagsvísindadeildar, Dr. Kasper Simo Kristensen skrifstofu- og rannsóknastjóri og Dr. Susanne Arthur verkefnastjóri OpenEU. 

Umsjónarmaður samstarfsins er Dr. Pastora Martínez Samper frá Universitat Oberta de Catalunya. Á opnunarfundinum líkti hún háskólasamstarfinu við fallega katalónska hefð sem kallast á frummálinu “Castell” sem er einskonar mannlegur turn.  En líkt og hvert “Castell” þarf sterkan og stöðugan grunn til að byggja á, þá mun Open EU samstarfið þurfa að byggja sterkan grunn með nánu samstarfi. Aðeins þannig getur samstarfið náð sínum metnaðarfullu markmiðum. 

Hlutverk Bifrastar

Þó Háskólinn á Bifröst sé minnsti aðilinn af tíu háskólum bandalagsins hvað varðar fjölda nemenda og starfsfólks, þá er framlag hans til samstarfsins engu að síður mikilvægt. Skólinn mun leiða verkefni sem snýr að samfélagsáhrifum og verður einnig þátttakandi í ýmsum öðrum verkefnum, þar á meðal þróun sameiginlegra námsleiða og örnáms með áherslu á þrjú lykilsvið: loftslagsmál, stafræna umbreytingu og lýðræði. 

Meira en 368.000 nemendur og 24.000 fræðimenn, rannsakendur og starfsfólk háskólanna sem að samstarfinu standa munu njóta góðs af OpenEU háskólasamstarfinu með auknum tækifærum til símenntunar og atvinnuhæfni, hreyfanleika og aðlögunar í starfi. 

Hópurinn sem var samankominn í Barcelona

Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig OpenEU mótast og eykur þverþjóðlegt nám og rannsóknir, auk þess að skapa ný tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk Háskólans á Bifröst, á Íslandi, í Evrópu og víðar.