Jafnlaunavottun

Háskólinn á Bifröst vill vera áhugaverður vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og upplifir sig vera að vinna mikilvæg störf í þágu nemenda og samfélagsins. Háskólinn á Bifröst stefnir að því að laun og önnur starfskjör starfsfólks séu helst samkeppnisfær við þann hluta vinnumarkaðarins sem er samanburðarhæfur við skólann. Mest er horft til starfssvæðis skólans í Borgarbyggð og kjara akademískra starfsmanna almennt. Háskólinn á Bifröst reiknar ekki með því að geta verið í efri mörkum miðað við viðmiðunarhópa en leggur þess meiri áherslu á að starfsfólk fái notið sín í starfi, eflist og þroskist og að starfsreynsla frá Háskólanum á Bifröst sé mikilvægt vegarnesti fyrir þá sem leita til annarra starfa.

Almennt eru laun og önnur starfskjör starfsfólks sett saman af föstum mánaðarlaunum, dagpeningum og aksturspeningum. Föst mánaðarlaun, fjöldi daga og kílómetra eru umsamin við rektor eða aðra í umboði hans. Fjárhæðir dagpeninga og ökutækjastyrks er ákveðin af rektor.

Settar eru fram tilteknar viðmiðanir um laun sem samtala fastra mánaðarlauna, dagpeninga og aksturspeninga er borin saman við. Þessar viðmiðanir eru þrep í launakerfinu sem eru áfangar í einstaklingsbundinni launaþróun akademískra starfsmanna eða endurspegla starfsmat starfsmanna við stjórnsýslu og þær eru endurskoðaðar árlega í samræmi við almenna hækkun launa við Háskólann á Bifröst.

Vikmörk frá viðmiðunarlaunum eru 25 þús. kr. til hvorrar áttar. Margir einstaklingsbundnir þættir ráða því hvar innan vikmarka viðkomandi starfsmaður er staðsettur launalega og ákveðið svigrúm er til breytileika og að taka tillit til séraðstæðna í samtölum milli starfsmanns og rektors í viðræðum um laun og önnur starfskjör. Ennfremur er litið til húsnæðiskostnaðar á Bifröst þegar laun eru að öðru leyti innan vikmarka. Húsnæðiskostnaður á Bifröst hjá starfsmönnum búsettum þar er að öðru leyti ekki hluti af launakerfi skólans.

Háskólinn á Bifröst greiðir almennt ekki sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þó er greitt fyrir umsjón á vinnuhelgum og frí auk þess tekið á móti. Almennt er miðað við að hægt sé að fá frí á móti ef unnið er mikið umfram vinnuskyldu. Þá verður að hafa í huga að löng frí eru tekin í kringum jól og páska meðan skólinn er lokaður sem eru til viðbótar samningsbundnu orlofi.

Háskólinn á Bifröst hefur sett á laggirnar Fræðslusjóð sem er nýttur til að greiða margvíslegan kostnað vegna fræðslu og endurmenntunar starfsfólks.

Starfsmenn Háskólans á Bifröst sem búa á Bifröst hafa notið sérstakra leigukjara með tilstyrk skólans. Þessu fyrirkomulagi verður haldið áfram.

Stefnt er að því að launabreytingar verði fyrst og fremst með almennum hætti við Háskólann á Bifröst og að laun breytist með einni prósentuhækkun einu sinni á ári, væntanlega á síðari árshelmingi. Þessi prósentuhækkun er ákveðin með hliðsjón af niðurstöðu helstu kjarasamninga og almennri launaþróun auk þess sem litið er til fjárhagslegrar stöðu skólans.

Starfsfólk er í ýmsum stéttarfélögum en í ráðningarsamningum er tekið fram að launabreytingar séu ekki tengdar við kjarasamninga. Launaþróun við Háskólann á Bifröst á almennt að miðast við að starfsmenn dragist ekki aftur úr þegar á heildina er litið.

Reynt er sérstaklega að gæta þess að ekki myndist kynbundinn launamunur við Háskólann á Bifröst og brugðist við um leið ef hann verður til staðar.

Almennt er ekki gert ráð fyrir að starfsmenn lækki í launum þótt starfsvið þeirra breytist. Komi til að starfsmaður hafi of há laun m.v. röðun verða laun fryst þar til mörkum er náð. Starfsfólk sem kemur tímabundið í afleysingar fær 70% - 90% af launum fastráðinna.