Nám við Háskólann á Bifröst

Háskólinn á Bifröst er hágæða fjarnámsháskóli sem leggur ríka áherslu á persónulega þjónustu við nemendur. Ánægjukannanir sýna að mikill meirihluti nemenda er afar ánægður með námið og samskipti við kennara og starfsfólk. Kannanir sýna einnig að nemendur kunna að meta hvernig háskólinn tengir fræði og framkvæmd saman.

Hágæða fjarnám

Nám við Háskólann á Bifröst er hagnýtt með áherslu á frumkvæði og sjálfstæði nemenda. Háskólinn sérhæfir sig í kennslu viðskiptatengdra greina og að mennta fólk til forystustarfa í atvinnulífinu og samfélaginu. Háskólinn á Bifröst er með sterk tengsl inn í atvinnulíf og samfélag og býður nemendum upp á starfsnám og raunhæf verkefni í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Fjölbreytt viðfangefni, umræður og samstarf nemenda og kennara tryggja nemendum góðan undirbúning fyrir ábyrgðarstöður. Endurmenntun Háskólans á Bifröst er jafnframt með í boði námskeið sem tengjast stjórnun og rekstri.

Allt nám við Háskólann á Bifröst er kennt í fjarnámi og eru allir fyrirlestrar rafrænir og nemendur stjórna að miklu leyti yfirferð námsefnis innan hverrar lotu. Námið fellur því vel að þörfum þeirra sem vilja fara í háskólanám með vinnu, öðru námi eða æfingum í keppnisíþróttum, svo að dæmi séu nefnd. 

Deildirnar

Við Háskólann á Bifröst eru þrjá deildir; félagsvísindadeild, lagadeild og viðskiptadeild. Hver deild hefur sína sérstöðu. Félagsvísindadeild hefur, sem dæmi, nýlega hafið kennslu í Skapandi greinum, fyrstur háskóla. Lagadeildin er sú fyrsta sem sett var á fót hér á landi utan Háskóla Íslands og er þekkt fyrir viðskiptalögfræðina sem þar er kennd. Þá má laga nám í viðskiptafræði við Bifröst að fjölmörgum mismunandi áherslum, allt eftir því hvar þú vilt láta til þín taka í heimi viðskiptanna.

Í Háskólanum á Bifröst er leitast við að þróa námsbrautir í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í atvinnulífi og samfélagi. Kennarar eru starfandi sérfræðingar á hverju sviði fyrir sig enda státar Háskólinn á Bifröst af afar sterkum tengslum við atvinnulífið. Við Háskólann á Bifröst er lögð mikil áhersla á persónulega þjónustu til nemenda, bæði af hálfu kennara og annars starfsfólks skólans.

Loturnar

Námið í Háskólanum á Bifröst fer fram í lotubundinni kennslu. Hverri önn er skipt upp í tvær lotur, sem taka 7 vikur hvor. Hver lota gerir ráð fyrir einni staðlotu á Bifröst. Staðlotur eru í kringum helgar og er dagskrá þeirra jafnan fjölbreytt. Nemendum gefst mikilvægt tækifæri til þess að hitta kennara og samnemendur og að taka þátt í umræðum og hópverkefnum, sem og að hlýða á gestafyrirlesara úr atvinnulífinu, eftir því sem við á.

Rík áhersla er lögð á að nemendur geti annars vegar unnið sjálfstætt og hins vegar í hópi. Jafnframt er  áhersla lögð á gagnrýna hugsun og hagnýta tengingu við úrlausn raunhæfra verkefna. Verkefnavinna er stór þáttur námsmats og vinna nemendur að verkefnum jafnt og þétt yfir hverja lotu og þannig geta nemendur tileinkað sér skilning á námsefninu jafnt og þétt. Kennarar leggja inn hljóðfyrirlestra á kennslukerfi skólans reglulega til að miðla kennsluefni til nemenda. Nemendur geta síðan nálgast fyrirlestrana og farið yfir á þeim tíma sem hentar hverjum og einum. 

Fræði og framkvæmd

Sérstaða í kennsluháttum Háskólans á Bifröst felst meðal annars í svokölluðum misserisverkefnum. Auk þeirra verkefna sem unnin eru innan einstakra námskeiða gefst nemendum því kostur á að vinna sjálfstæð hópverkefni á þeirra kjörsviði á meðan á náminu stendur. Misserisverkefnin eru kennd yfir sumarannir og eru þau viðamikil verkefni sem nemendur vinna saman sem teymi af 4-6 einstaklingum að rannsóknum og úrlausn sjálfstæðra hópverkefna sem eru síðan kynnt og lögð í dóm kennara og samnemenda. Samhliða misserisverkefnum fá nemendur markvissa þjálfun í verkefnastjórnun. Nemendur eiga að vinna tvö slík verkefni í náminu.

Í misserisverkefnum er byggt á kennsluaðferð sem kallast lærdómsþróun (e. Learning by Developing). Þetta er kennsluaðferð sem byggir á náinni samvinnu nemenda og leiðbeinenda sem og annarra fagaðila á vinnumarkaði. Verkefnavinnan gerir miklar kröfur til nemenda en í verkefnunum er haft að leiðarljósi að þróa nýjar leiðir til að auka verðmætasköpun, samkeppnishæfi, sjálfbærni og nýsköpun. Með aðferðum lærdómsþróunar hafa nemendur stórt hlutverk sem styrkir þá og eykur hæfni þeirra til að takast á við raunverkefni þegar út á vinnumarkaðinn er komið að loknu námi. Einnig hjálpa þessi verkefni nemendum að undirbúa sig við þá vinnu sem felst í því að skrifa lokaritgerð.