MS-MMM í markaðsfræði

Meistaranám í markaðsfræði á Bifröst er hagnýtt meistaranám sem byggir á nánum tengslum við atvinnulífið. Nemendur vinna að fjölbreyttum raunverkefnum og fá undirbúning fyrir áskoranir í markaðsmálum samtímans. Námið er ætlað þeim sem starfa eða hafa hug á að starfa við markaðsmál og hafa jafnvel þegar reynslu af markaðs- og sölumálum en vilja dýpka þekkingu sína á fjölbreyttri flóru markaðsfræðinnar. Boðið er upp á tvær leiðir, MS nám með 30 eininga meistararitgerð eða MMM gráðu án ritgerðar.  

Markaðsfræðinám við Háskólann á Bifröst byggir á meira en tveggja áratuga rannsóknum og faglegri þekkingarmiðlun, sem hefur markað háskólanum sérstöðu í markaðsfræðinámi hér á landi. Sérstaðan felst m.a. fjölbreyttu framboði á markaðsfræðiáföngum, hagnýtum verkefnum og góðum tengslum við atvinnulífið.

Þá felst sérstaða markaðsfræðinnar við Háskólann á Bifröst ekki hvað síst í þeirri faglegu þekkingu og reynslu sem kennarar búa yfir og gefst nemendum því kostur á að kynnast heimi markaðsmála frá fyrstu hendi.

Á meðal mikilvægra kjarnagreina í náminu er stefnumótun og mikilvægi hennar fyrir árangur markaðsstarfs, samhæfð markaðssamskipti og vörumerkjastjórnun. Jafnframt er stafræni heimurinn skoðaður á einstakan hátt í námskeiði þar sem nemendur fá heildræna sýn á stafræna hagkerfið, en að auki er einnig í boði valnámskeið í stafrænni markaðsstjórnun. Þá er stjórnun viðskiptatengsla námskeið sem er eingöngu í boði við Háskólann á Bifröst, þar sem nemendur læra mikilvægi þess að byggja upp og efla tengsl við viðskiptavini. Þá eru jafnframt í boði námskeið í alþjóðamarkaðsfræði, þjónustustjórnun og markaðsrannsóknum. 

Gestafyrirlesarar úr atvinnulífinu og hagnýt verkefni gera nemendum veita nemendum enn fremur innsýn í raunverulegum viðfangsefnum fyrirtækja. Nemendum gefst einnig kostur á að vinna með sínar eigin hugmyndir og stefnumótun fyrir nýsköpun.

Líf eftir útskrift

Í lok náms hefur nemandi öðlast þekkingu og hæfni og þá heildarsýn sem þarf til að stýra markaðsmálum með markvissum hætti og eru brautskráðir nemendur úr markaðsnámi á meistarastigi frá Háskólanum á Bifröst starfandi að markaðsmálum víða í atvinnulífinu. Nemendur starfa eða hafa starfað sem:

  • Markaðsstjórar stórra fyrirtækja/stofnana/hagsmunafélaga
  • Stafrænir markaðssérfræðingar
  • Vörumerkjastjórar
  • Verkefnastjórar á markaðssviði/auglýsingastofum
  • Sjálfstætt starfandi markaðssérfræðingar

Fanney Skúladóttir, markaðsstjóri Blush

„Námið á Bifröst veitti mér tæki og tól til að skapa mín eigin tækifæri sem lagði grunninn að því starfi sem ég hef í dag, Skipulagið er frábært, kennarar eru mjög hæfir og verkefnin í gegnum námið gefa þér góða hæfni að takast á við krefjandi verkefni á sviði markaðsmála.” 

Háskólinn á Bifröst hefur langa reynslu þegar kemur að fjarnámi þar sem nemendur stjórna að miklu leyti sjálfir námshraða sínum. Kennsluaðferðin er vel skipulagt og sveigjanlegt fjarnám sem nemendur geta tekið á sínum hraða og geta stundað námið hvar sem er. Kennsluhættir miðast við að mæta nútímaþörfum nemenda þar sem lögð er áhersla á persónulega kennslu og þjónustu á staðlotum. 

  • Lærðu heima

    Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi í fjarnámi, sem gerir þér kleift að vera í námi á þínum forsendum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna nálgun og námsumhverfi er stafrænt og sveigjanlegt. Stafrænt fjarnám er þannig frábær valkostur fyrir fólk sem hentar að vera í sveigjanlegu háskólanámi, vegna vinnu með námi eða af einhverjum allt öðrum ástæðum. Nánar um námið við Háskólann á Bifröst

  • Uppbygging námsins
    Meistaranám í markaðsfræði gefur kost á annars vegar námi til MMM gráðu og hins vegar til MS gráður.
     
    MMM gráða er 90 eininga viðbótarnám á meistarastigi í markaðsfræði án lokaritgerðar. Nemendur ljúka 15 námskeiðum (90 ECTS einingar). 

    MS gráða í markaðsfræði er 90 eininga meistaranám þar sem nemendur ljúka 10 námskeiðum (60 ECTS einingar) og MS ritgerð (30 ECTS einingar).

    Báðar meistaranámsleiðir fela í sér eins og hálfs árs nám í fullu námi.
  • Inntökuskilyrði meistaranáms

    Inntökuskilyrði í meistaranám í viðskiptafræði er grunnnámsgráða á háskólastigi eða menntun sem telja má sambærilega við grunngráðu í háskóla, sem að jafnaði hefur verið lokið með 7,25 í einkunn eða jafngildi þess. Leitað er að fjölbreyttum hópi  umsækjenda með mismunandi menntun og starfsreynslu. Sú dýrmæta reynsla sem nemendur öðlast af því að læra og vinna með fjölbreyttum hópi nemenda með mismunandi bakgrunn er ómetanleg. Nemendahópurinn á það sameiginlegt að vilja öðlast framúrskarandi þekkingu, þjálfun og undirbúning fyrir stjórnunarstörf nútímans.

  • Skipulag námsins

    Hvert námskeið í stafrænu námi er allajafna kennt í 7 vikna lotum (tvö námskeið eru kennd yfir tvær lotur) og í hverju námskeiði er ein staðlota á Bifröst. Í öllum námskeiðum liggja fyrir ákveðin þekkingar-, leikni- og hæfnimarkmið. Lögð eru fyrir verkefni jafnt og þétt sem þjálfa nemendur í að öðlast þá leikni og hæfni sem að er stefnt í hverju námskeiði fyrir sig. Á staðlotum fer síðan fram verkefnavinna og umræður með kennara. Gert er ráð fyrir talsverðri verkefnavinnu í hverju námskeiði og lögð er áhersla á hópa- og teymisvinnu í verkefnum. Skipulag fjarnámsins er þannig að fyrirlestrar og kennsluefni í hverju námskeiði er aðgengilegt nemendum á fjarnámsvef háskólans og nemendur geta þannig skipulagt tíma sinn eins og þeim hentar best

  • Umsóknarfrestur

    Opið er fyrir umsóknir um nám við Háskólann á Bifröst vegna haustannar 2024 til og með 5. júní nk. 

    Sækja um