IN SITU er nýtt alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem Háskólinn á Bifröst er aðili að og tekur þátt í að vinna fram til ársins 2026.  Verkefnið er styrkt af Horizon sjóð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

IN SITU er framkvæmdarstýrð rannsókn sem skoðar mikilvægi tengsla á landfræðilegu rými, samfélagslegum áhrifum fólks og menningarstarfsemi. Rannsóknin grundvallast á sérstöðu svæða og hvernig þau nýta sér hana í nýsköpun og þróun. Hún byggir á mikilvægi þeirra sem koma að menningarstarfsemi á landsvæðinu, sem til rannsóknar er, og áhrifum þeirra á uppbyggingu samfélagsins.


Samandregin markmið IN SITU verkefnisins eru:

● áskorun á ríkjandi þéttbýlishugsun í samhengi menningarhagkerfisins,
● tæki til að auka meðvitund um virðisaukandi þætti menningar og skapandi greina í dreifbýli
● stuðla að nýjum viðskiptaháttum og eflingu samvinnu í menningarstjórn
●  draga fram hreyfiafl menningar og skapandi geira á samfélagsþróun í staðbundnu samhengi

Tilgangur IN SITU annsóknaverkefnisins er að auka skilning á formgerð, ferlum og stjórnun fyrirtækja í skapandi greinum í dreifbýli í Evrópu. Skoðað verður hvernig efla megi nýsköpun hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum í skapandi greinum og stuðla með því móti að aukinni samkeppnishæfni og sjálfbærni landsbyggðar. Þrettán háskólar og stofnanir í tólf Evrópulöndum taka þátt í verkefninu.  Vesturland er eitt af sex tilraunasvæðum IN SITU. Hin tilraunasvæðin eru staðsett í Portúgal, Finnlandi, Lettlandi, Króatíu og á Írlandi.